Einhver veikleiki í æðaveggnum er álitin vera ástæða þess að æðahnútar myndist.
Lokur í bláæðakerfinu eiga að hindra að blóðið leiti í ranga átt það er niður í fætur. Bláæðalokur eru bæði í djúpa og grunna bláæðakerfinu og ef þær virka ekki verður um bakflæði að ræða (reflux) sem veldur auknum þrýstingi á bláæðum undir sem þenjast út og æðahnútar myndast. Æðahnútar geta myndast þó svo að ekkert bakflæði sé í stofnæðum grunna kerfisins. Ómskoðun á djúpa og grunna bláæðakerfinu fyrir aðgerð tryggir að réttri meðferð er beitt.
Líklegt er að orsakir æðahnúta megi að talsverðu leyti rekja til erfðaþátta, það er að þeir eru arfgengir. Það hefur þó reynst erfitt að sýna fram á það með óyggjandi hætti þar sem um svo algengan kvilla er að ræða. Offita/ofþyngd eykur líkur á myndun æðahnúta sérstaklega hjá konum og sjúkdómurinn er einnig oft alvarlegri með húðbreytingum og sármyndunum.
Comments are closed.