Fræðsla
Æðahnútar
Æðahnútar er algengur sjúkdómur. Eina leiðin til að losna við æðahnúta er með æðahnútaaðgerð. Æðahnútaaðgerðir eru framkvæmdar af æðaskurðlæknum sem hafa sérhæft sig í meðferð þeirra. Miklar framfarir í meðferð æðahnúta hafa orðið síðustu 25 ár með tilkomu innæðaaðgerða. Tíðni æðahnúta í hinum vestræna heimi er talinn um 30% og kynjaskipting er nokkuð jöfn þó líklega sé þetta algengara hjá konum. Síðunni er ætlað að miðla upplýsingum um æðahnúta og úrræði við þeim.
Get ég farið í lasermeðferð
Já, allir með æðahnúta geta farið í aðgerð óháð því hvort reynt hafi verið að leysa æðahnúta vandamálið með aðgerðum áður eða ei.
Með ómskoðun er greint hvaða stofnæð er biluð og hvort möguleiki sé á að gera laseraðgerð til að leysa vandamálið. Ef einungis eru til staðar æðahnútar en ekki neinn leki í stofnæð grunna bláæðakerfisins nægir að fjarlægja æðahnútanna með heklunál án þess að beita þurfi lasermeðferð.
Eru æðahnútar hættulegir
Æðahnútar eru nánast aldrei hættulegir.
Æðahnútar valda þó yfirleitt vandræðum ef ómeðhöndlaðir um langan tíma. Um 5% einstaklinga með æðahnúta fá húðbreytingar sem að lokum geta valdið sáramyndunum á leggnum. Þessi sár eru oft lengi að gróa og eru gjörn á að koma aftur.
Bláæðakerfi í ganglim
Bláæðakerfið í ganglimum greinist í 3 þætti, það yfirborðslæga, það djúpa og tengiæðar milli þessara kerfa.
Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að yfirborðslægur sjúkdómur (æðahnútar) geta valdið sáramyndun, en ekki einungis djúplægur sjúkdómur eins og oft áður var talið. Flokkunarkerfi bláæðasjúkdóma (CEAP classification) er notað þar sem margir mikilvægustu þættir sjúkdómsins eru skráðir. C stendur fyrir “clinical class” þar sem lýst er einkennum sjúkdómsins, E fyrir “etiological class” sem er orsakagreining sjúkdómsins, A fyrir “anatomical class” eða líffræðileg staðsetning sjúkdóms og P fyrir “pathophysiological class” sem er lífeðlisfræðileg greining. Hjá Bláæðasetrinu notum við CEAP flokkunarkerfið hjá öllum okkar skjólstæðingum.
Meðferð
Æðahnútar hverfa ekki nema með aðgerð. Nútíma æðahnúta aðgerðir eru gerðar í staðdeyfingu með innæðaaðgerð.
Einungis sá hluti æðakerfisins sem er bilaður er meðhöndlaður og er ómskoðun notuð til greiningar.
Rannsóknir benda til að það sé æskilegt að einstaklingar með æðahnúta og breytingar í húð haldi kjörþyngd sinni til að koma í veg fyrir að æðahnúta sjúkdómurinn ágerist.
Heilbrigður lífsstíll og æfingar geta hugsanlega seinkað því að æðhnútar versni. Teygjusokkar draga oft úr einkennum tengdum æðahnútum. Mikilvægt er að meðhöndla æðahnútanna áður en húðin skaðast því oft eru þær breytingar óafturkræfar.
Orsakir
Einhver veikleiki í æðaveggnum er álitin vera ástæða þess að æðahnútar myndist.
Lokur í bláæðakerfinu eiga að hindra að blóðið leiti í ranga átt, það er niður í fætur. Bláæðalokur eru bæði í djúpa og grunna bláæðakerfinu og ef þær virka ekki verður um bakflæði að ræða (reflux) sem veldur auknum þrýstingi á bláæðum undir sem þenjast út og æðahnútar myndast. Æðahnútar geta myndast þó svo að ekkert bakflæði sé í stofnæðum grunna kerfisins. Ómskoðun á djúpa og grunna bláæðakerfinu fyrir aðgerð tryggir að réttri meðferð sé beitt.
Líklegt er að orsakir æðahnúta megi að talsverðu leyti rekja til erfðaþátta, það er að þeir eru arfgengir. Það hefur þó reynst erfitt að sýna fram á það með óyggjandi hætti þar sem um svo algengan kvilla er að ræða. Offita/ofþyngd eykur líkur á myndun æðahnúta sérstaklega hjá konum og sjúkdómurinn er einnig oft alvarlegri með húðbreytingum og sármyndunum. Þáttur hormóna er að öllum líkindum einhver, æðahnútar birtast oft fyrst í tengslum við meðgöngu.
Áhættuhópar/tíðni
Æðahnútar eru mjög algengir enda talið að um 30% einstaklinga í vestrænum samfélögum séu með æðahnúta.
Æðahnútar eru nánast jafn algengir hjá konum og körlum en karlar fá þetta þó nokkuð síðar á lífsleiðinni. Oft verður fyrst vart við æðahnúta undir meðgöngu og það er ástæða þess að konur fá þetta fyrr en karlar. Fjöldi barneigna eykur einnig tíðni á æðahnútum. Ofþyngd eykur hættu á að mynda æðahnúta.
Ef einnig eru taldir með einstaklingar með eingöngu æðaslit er tíðnin mun meiri eða um 50% á miðjum aldri.
Einkenni
Þreyta, pirringur, verkur, bjúgur og sinadráttur eru algeng einkenni æðahnúta.
Æðahnútar geta verið án einkenna, það er að einungis er um lýti að ræða. Flestir hafa þó einhver einkenni æðahnúta sem stundum geta verið óljós.
Einkenni æðahnúta verða oft meira áberandi þegar líður á daginn og sérstaklega eftir lengri stöður. Margir finna fyrir krömpum að næturlagi og gjarnan verður þeirra vart fyrri part nætur. Margir eiga erfitt með að lýsa verkjunum en þeir eru oft staðsettir þar sem æðahnútar eru. Mörgum finnst léttir að hafa hátt undir fætur til að losna við óþægindin. Fótaóeirð er venjulega ekki eitt af einkennum æðahnúta, þessi hvimleiðu einkenni geta einnig verið hjá einstaklingum með eðlilegt æðakerfi. Í einhverjum tilvikum minnkar þó eða hverfur fótaóeirðin eftir aðgerð.
Ef æðahnútar hafa staðið lengi ómeðhöndlaðir geta komið fram varanlegar skemmdir í húðinni og einnig geta myndast sár. Þessi sár eru oft á tíðum mjög langvinn og erfið í meðferð og eru gjörn að koma aftur. Talið er að um 1% þjóðarinnar sé með eða hafi haft bláæðasár svo þetta er algengur kvilli.